Ég varði doktorsritgerð mína „School engagement and intentional self-regulation: A reciprocal relation in adolescence“, á íslensku „Virk þátttaka í skólastarfi og sjálfstjórnun: Gagnvirkt samband á unglingsárum“ í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild og Sálfræðideild Háskóla Íslands þann 23. maí 2017. Andmælendur voru dr. Katariina Salmela-Aro, prófessor við University of Jyväskylä, Finnlandi, og dr. Álfgeir Logi Kristjánsson, dósent við West Virginia University, Bandaríkjunum.
Doktorsverkefnið var fólgið í útgáfu þriggja ritrýndra vísindagreina ásamt samantektar sem finna má hér.
Um verkefnið
Virk þátttaka í skólastarfi (e. school engagement; skuldbinding til náms) er mikilvæg fyrir farsæla skólagöngu en sýnt hefur verið fram á skýr tengsl virkrar
þátttöku í skólastarfi og jákvæðra þátta eins og t.d. hárra einkunna og lítillar hættu á brottfalli. Á sama tíma hefur verið sýnt fram á að sjálfstjórnun (e. intentional self regulation; hæfileikinn til að setja sér, forgangsraða og ná langtímamarkmiðum) spáir fyrir, miðlar og verður fyrir áhrifum af virkri þátttöku nemenda. Þrátt fyrir það er lítið vitað í hvaða röð þessi tengsl eiga sér stað á unglingsárum. Í þessari rannsókn var kannað hvort jákvætt gagnvirkt samband gæti verið til staðar á milli virkrar þátttöku nemenda og sjálfstjórnunar á unglingsárum. Markmiðum rannsóknarinnar var skipt í þrennt. Fyrsta markmiðið var að auka við fyrirliggjandi þekkingu á því hvernig mæla má sjálfstjórnun á unglingsárum. Annað markmiðið var að auka við fyrirliggjandi þekkingu á því hvernig mæla má virka þátttöku í skólastarfi á unglingsárum. Þriðja markmiðið var að prófa tilgátuna um jákvætt gagnvirkt samband milli virkrar þátttöku nemenda og sjálfstjórnunar síðustu tvö ár grunnskólans. Niðurstöður úr aðlögun og þróun mælitækjanna á virkri þátttöku nemenda og sjálfstjórnun voru birtar í tveimur tímaritsgreinum sem byggðu á langtímagögnum sem safnað var frá 561 unglingi (46% stelpur, Maldur við byrjun 9. bekkjar = 14,3 ár, Staðalfrávik = 0,3) við upphaf og lok 9. og 10. bekkjar. Niðurstöður úr lokagrein rannsóknarinnar byggðu á sömu langtímagögnum og studdu megintilgátuna um jákvætt gagnvirkt langtímasamband milli virkrar þátttöku og sjálfstjórnunar eftir að stjórnað hafði verið fyrir áhrifum kyns, fyrri námsárangurs og menntunar foreldra. Að auki sýndu niðurstöðurnar minnkandi stöðugleika virkrar þátttöku og sjálfstjórnunar eftir því sem leið að lokum grunnskólans. Minnkandi stöðugleiki á tímabilinu er í samræmi við kenningar sem lýsa virkri þátttöku nemenda og sjálfstjórnun sem mótanlegum þáttum. Sambandið milli virkrar þátttöku nemenda og sjálfstjórnunar styður við tilgátur sem sýna sjálfstjórnun sem lykilhugtak í stuðningi við virka þátttöku í skólastarfi.